Hagnaður 365 miðla ehf. nam 305 milljónum króna í fyrra, en árið 2011 nam hagnaður fyrirtækisins 250 milljónum króna, að því er kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Samkvæmt ársreikningi 365 miðla ehf. fyrir árið 2012 nam heildarvelta 9.227 milljónum króna og EBITDA hagnaður nam 1.088 milljónum. Árið 2011 nam EBITDA hagnaður fyrirtækisins 812 milljónum króna. Afskriftir og fjármagnsliðir námu 699 milljónum króna á árinu og hagnaður ársins eftir skatta var 305 milljónum.

Í tilkynningunni segir að það sem af sé þessu ári hafa langtímaskuldir lækkað um 375 milljónir. Gert er ráð fyrir að vaxtaberandi skuldir félagsins muni í árslok 2013 nema sem svarar rekstrarhagnaði (EBITDA) í tvö og hálft ár. Félagið hefur nýlega samið við viðskiptabanka sinn um endurfjármögnun langtímalána. Þau eru nú í 8 ára greiðsluferli, sem léttir verulega á greiðslubyrði félagsins, að því er segir í tilkynningunni.

Þar er haft eftir Ara Edwald forstjóra 365 miðla að rekstur ársins 2012 hafi verið ásættanlegur og að þetta hafi verið þriðja árið í röð sem félagið skili hagnaði sem telja megi viðunandi í ljósi efnahagsumhverfisins.