Sjóklæðagerðin hf. hefur birt ársreikning samstæðu félagsins fyrir árið 2016 sem samþykktur var af stjórn félagsins 14. ágúst 2017. Fram kemur í reikningnum að rekstrartekjur samstæðunnar hafi aukist um 3% á milli ára, fari úr 3.542 milljónum króna árið 2015 í 3.636 milljónir króna árið 2016, sem er aukning um 95 milljónir króna að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Rekstrarhagnaður ársins er tæp 141 milljónir króna, samanborið við tæplega 198 milljón króna árið 2015. Kjarasamningsbundnar hækkanir launa hafa haft talsverð áhrif á minnkandi rekstrarhagnað á milli ára. Af áframhaldandi starfsemi er tæplega 38,8 milljóna króna tap á árinu 2016, miðað við rúmlega 6,6 milljóna króna tap árið áður.

Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir samstæðunnar 2.573 milljónum króna í lok árs 2016 og hafa aukist um 1% á milli ára, þegar leiðrétt hefur verið fyrir fjármagnshreyfingum tengdum sölu dótturfélaga Sjóklæðagerðarinnar í árslok 2015. Bókfært eigið fé í árslok er tæplega 275 milljónir króna og eiginfjárhlutfall samstæðunnar 11%.

Sjóklæðagerðin 66°NORÐUR seldi í árslok 2015 allt hlutafé í dótturfélögunum Rammagerðinni ehf. og Miðnesheiði ehf. til móðurfélags síns, líkt og gerð var grein fyrir í ársreikningum síðasta árs.

Tekjur aukist um 50%

„Rekstur ársins ber merki mikillar og hraðrar uppbyggingar síðustu ára þar sem áhersla hefur verið lögð á að greiða niður lán og fjárfesta í innviðum. Undanfarin 5 ár hafa fjárfestingar numið rúmlega 700 milljónum króna í nýjum verslunum og verksmiðjum til að auka framleiðslugetuna, en á þessum tíma hafa tekjur félagsins aukist um rúm 50%,“ segir Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri Sjóklæðagerðarinnar 66°NORÐUR.

„Þá hefur sókn á erlenda markaði verið endurskipulögð með það að sjónarmiði að herja með markvissari hætti á færri markaði. Og þótt þetta kunni að kalla á tímabundinn tekjusamdrátt á sumum markaðssvæðum, má geta þess að nýliðinn mánuður var metmánuður í tekjum hjá félaginu en salan í ágúst var tæplega 15% meiri en í sama mánuði í fyrra.

Seinni hluta síðasta árs kynnti félagið nýja vörulínu úr efnum frá GORE sem meðal annars framleiðir GORE-TEX. Línan, sem tók eitt og hálft ár í þróun, hefur fengið frábærar viðtökur viðskiptavina bæði hér á landi og erlendis, en margar af GORE-TEX flíkunum seldust hratt upp. Þá opnaði Sjóklæðagerðin 66°NORÐUR í ágúst síðastliðnum sína þriðju verslun í Kaupmannahöfn.“