Seðlabankinn hefur nú auglýst annað skrefið í fyrsta gjaldeyrisútboði sínu sem er liður í áætlun þeirri um afnám gjaldeyrishafta sem kynnt var 25. mars sl. Í þessu seinna skrefi felast kaup á evrum og verður greitt fyrir þær með þeim aflandskrónum sem fengust í fyrra skrefinu en þá keypti bankinn aflandskrónur og greiddi fyrir með evrum. Nú stendur sem sé til að kaupa evrurnar til baka og greiða fyrir með ríkisskuldabréfi sem seljendum ber að eiga í fimm ár, gjalddagi bréfsins er þó árið 2030. Þá verða umræddar krónur komnar í umferð hér á landi og orðnar álandskrónur.

Vaxtafundur Seðlabanka Íslands
Vaxtafundur Seðlabanka Íslands
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Þeir sem munu selja Seðlabankanum evrur að þessu sinni verða að öllum líkindum eingöngu fagfjárfestar og þá öðru fremur lífeyrissjóðir landsins. Eins og fram hefur komið hyggst Seðlabankinn kaupa tilbaka um 64 milljónir evra en í fyrra skrefinu voru seldar um 62,2 milljónir evra ef miðað er við gengið 215 krónur á evru sem var lægsta samþykkta gengi. Hæsta samþykkta gengi í seinna skrefinu verður 210 krónur á evru, sem sé 5 krónum lægra. Bankinn mun því kaupa evrurnar ódýrar en hann seldi þær og hagnast um mismuninn, svipað og ef um skortsölu væri að ræða. Sé miðað við minnsta mögulega mismun þá verður hagnaðurinn 5 krónur á hverja evru og sé það margfaldað með 62,2 milljónum evra, þ.e. þeirri upphæð evra sem seldar voru í fyrra skrefinu, verður hagnaðurinn að lágmarki 311 milljónir króna. Ljóst er að munurinn gæti orðið talsvert meiri, bæði þar sem meðalgengi í fyrra skrefi útboðsins var 218,9 og meðalgengi í seinni hlutanum gæti orðið lægra en 210, en allar áætlanir um meiri hagnað yrðu aldrei annað en getgátur og því er réttast að miða við lágmarkshagnaðinn sem er ljós.

Haft var eftir Stefáni Jóhanni Stefánssyni, upplýsingafulltrúa Seðlabankans, á vef Viðskiptablaðsins í fyrradag að meginþorri þess hagnaðar sem verður af viðskiptunum renni til ríkissjóðs samkvæmt samningi bankans við Fjármálaráðuneytið en samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er umsamið hlutfall 4/5 til ríkissjóðs og 1/5 til Seðlabankans.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.