*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 24. maí 2018 13:13

Tekjur Advania jukust um 60%

Styrking krónunar hefur neikvæð áhrif á afkomu Advania-samstæðunnar en hjá Advania á Íslandi jókst hagnaðurinn um 20% milli ára.

Ritstjórn
Ægir Már Þórisson forstjóri Advania á Íslandi og Gestur G. Gestsson forstjóri AdvanaAB samstæðunnar sem skrásett er í Svíþjóð.
Aðsend mynd

Hagnaður AdvaniaAB, móðurfélags Advania á Íslandi, sem skráð er í Svíþjóð, var á síðasta ári rétt rúmlega þriðjungur þess sem hann var árið 2016. Hagnaður móðurfélags Advania á Íslandi, það er samstæðunnar AdvaniaAB, var um 280 milljónir íslenskra króna en hagnaður Advania hér á landi var 420 milljónir.

Fór hagnaður móðurfélagsins í Svíþjóð úr 61 milljón sænskra króna, eða sem samsvarar um 740 milljónum íslenskra króna, árið 2016 í 23 milljónir sænskra, það er um 279 milljónir íslenskra króna. Árið 2015 nam hagnaðurinn 21,2 milljónum sænskra króna.

Mikill gengissveifla í hagnaði milli ára

Eva Sóley Guðbjörnsdóttir fjármálastjóri Advania á Íslandi segir skýringuna á þessari miklu sveiflu í hagnaði samstæðunnar milli ára vera gegnishagnaður vegna lána, enda styrktist íslenskra krónan mikið árið 2016. Gengishagnaður félagsins það ár nam 53 milljónum sænskra króna en árið 2017 var hann einungis 9 milljónir sænskra króna.

„Rekstrarárið 2017 var það besta í sögu Advania samstæðunnar,“ segir Eva Sóley. „Það hefur veruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu samstæðunnar og skýrir lækkun á hagnaði félagsins milli áranna 2016 og 2017. Ef horft væri framhjá þessum áhrifum vegna gengisbreytinga þá er hagnaður félagsins að aukast á milli ára.“

Tekjurnar jukust um 60%

Lækkun hagnaðar er þrátt fyrir að tekjur Advania samstæðunnar jukust um 60% milli ára, frá 1.763 milljónum sænskra króna árið 2016 í 2.817 milljónir sænskra króna árið 2017. Það samsvarar aukningu frá um 21 milljarði í 35 milljarða íslenskra króna. EBITDA samstæðunnar jókst um 59% milli ára, frá 162 milljónum sænskra króna árið 2016 í 258 milljónir sænskra króna árið 2017.

Í íslenskum krónum er það breyting úr tæplega tveimur milljörðum í ríflega þrjá milljarða. Kostnaður samstæðunnar jókst hins vegar mikið á milli ára, eða úr 986,9 milljónum sænskra króna árið 2015 í 1.763 milljónir árið 2016 í 2.817 milljónir í fyrra. Þetta er aukning um 59,5% milli 2016 og 2017 og um þreföldun frá árinu 2015.

Arðsemi jókst í Svíþjóð

Gestur G. Gestsson forstjóri samstæðu AdvaniaAB segir að 2017 hafi verið mikið framfaraár hjá félaginu. „Við héldum áfram að vaxa og auka arðsemina í Svíþjóð sem er stærsta markaðssvæði okkar,“ segir Gestur.

„Áherslubreytingar voru gerðar í Noregi þar sem Microsoft 365 var sett í forgang. Það skilaði okkur aukinni sölu og algjörum viðsnúningi í rekstri. Áhersla á þjónustu við viðskiptavini hefur veitt Advania samkeppnisforskot í síbreytilegu umhverfi upplýsingatækninnar. Við erum staðráðin í að halda þeirri þróun áfram á komandi árum.”

Hagnaðurinn á Íslandi 420 milljónir

Hagnaður Advania á Íslandi nam svo 420 milljónum íslenskra króna á síðasta ári sem er fimmtungsaukning frá fyrra ári segir í Morgunblaðinu. Jukust tekjurnar um 11% frá árinu 2016 en í heildina námu þær 12,7 milljörðum króna. EBITDA félagsins nam 1.150 milljónum á síðasta ári sem er 15% vöxtur frá árinu 2016, en EBITDA hlutfallið á síðasta ári var svo 9,1% sem er hækkun um 0,4% á milli ára.

Ægir Már Þórisson forstjóri Advania á Íslandi segir tekjuvöxt félagsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nema 23%. „Við höfum einnig bætt við okkur starfsfólki, en 50 fleiri starfa hjá okkur nú en á sama tíma á síðasta ári,“ segir Ægir Már en hann hefur áhyggjur af launaþróuninni.

„Okkar langstærsti kostnaðarliður eru laun, og ef það er órói á vinnumarkaði getur það haft gríðarleg áhrif á okkur. Við þráum bara stöðugleika.“

Ræturnar í Skýrsluvélum ríkisins

Advania varð til fyrir sex árum með sameiningu gömlu Skýrsluvéla ríkisins, Skýrr hf., EJS, HugurAx, Kerfi í Svíþjóð og Hands í Noregi, en félagið hefur nú starfsemi bæði í Svíþjóð og Noregi auk Íslands og er fyrirtækið að færa út kvíarnar til Danmerkur og Finnlands.

Félagið Advania Data Centers er til viðbótar, en það er aðskilið frá samstæðunni sem Gestur G. Gestsson stýrir.„Advania Data Centers er rekið sem sérrekstrareining og tilheyrir hvorki Advania á Íslandi né heldur er félagið hluti af Advania-samstæðunni,“ segir Gestur sem segir að sjálfstæði gagnaveranna væri mikilvægt, m.a. því önnur lögmál giltu á þeim markaði.

„Okkur fannst skakkt að beina öllum okkar viðskiptavinum að einum hýsingaraðila. Það væri mun betra að hafa hann sjálfstæðan, þannig að hann keppti um okkar viðskipti sem og annarra, á móti öðrum gagnaverum.“