*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 4. apríl 2018 10:25

Hagnaður af Kerinu eykst um 60%

Á síðasta ári nam hagnaður Kerfélagsins 60 milljónum, en tekjurnar námu um 113 milljónum króna.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Kerfélagið, sem á og rekur Kerið í Grímsnesi, hagnaðist um ríflega 58 milljónir króna á síðasta ári að því er Fréttablaðið hefur upp úr ársreikningi félagsins. Er það nálega tvöföldun hagnaðar frá fyrra ári, en árið 2016 nam hann 30 milljónum króna.

Tekjur félagsins á síðasta ári námu 113 milljónum króna sem er aukning um ríflega 60% frá árinu 2016. Félagið hóf gjaldtöku fyrir aðgang að kerinu sumarið 2013 og er aðgangseyririnn nú 400 krónur að viðbættum virðisaukaskatti. Félagið er í eigu Óskars Magnússonar, Ásgeirs Bolla Kristinssonar, Jóns Pálmasonar og Sigurður Gísli Pálmason.

Haft er eftir Óskari fyrir ári síðan að um 150 þúsund manns hefðu heimsótt gíginn árið 2016 svo ef aukningin hefur verið um 60% má áætla að um 240 þúsund manns hafi heimsótt hann á síðasta ári. Engin arðgreiðsla hefur verið áætluð úr félaginu enda sagði Óskar að það vildi eiga fyrir framkvæmdum og viðhaldi vegna ágangsins við gíginn.