Hagnaður varð af rekstri 365 miðla á árinu 2015 að fjárhæð 22 milljónir sem er viðsnúningur frá fyrra ári þegar félagið skilaði 1,3 milljarða króna tapi.

Tekjur félagsins voru rúmir 11 milljarðar króna og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 955 milljónum króna. Heildareignir samstæðunnar námu í árslok 12,8 milljörðum króna. Þar af námu skuldir 10 milljörðum króna en eigið fé nam 2,8 milljörðum króna. Af þessu fæst eiginfjárhlutfall upp á um það bil 23%.

Sala hjá félaginu jókst jafnframt um tæp 11 prósent og nam 11,1 milljörðum króna, samanborið við 10 milljarða króna á árinu 2014. Töluverð aukning varð í fjarskiptatekjum á árinu 2015 eftir sameiningu við Tal á miðju ári 2014. Sala jókst um 4,8 prósent af afþreyingarhluta starfsemi 365.