Sala aðgangskorta og veitinga í líkamsræktarstöðvum World Class skilaði um 1.726 milljónum í tekjur á árinu 2012, samkvæmt samstæðureikningi Lauga ehf. fyrir síðasta ár. Hagnaður ársins nam 147 milljónum króna samanborið við 63 milljóna tap árið áður.

Félagið er í eigu hjónanna Hafdísar Jónsdóttur (48,8%) og Björns Leifssonar (24,4%) auk Sigurðar Leifssonar (26,8%). Fram kemur í skýrslu stjórnar að Laugar hafi á síðasta ári keypt húseignina í Laugardal sem hefur verið höfuðstöðvar félagsins auk þess sem félagið hafi keypt kröfuréttindi af ALMC hf. fyrir 350 milljónir króna. Yfirtaka eigna stækkaði efnahagsreikning verulega og hækkuðu bæði eignir og skuldir um ríflega 2,5 milljarða króna.

Eignir námu um áramót samtals 3,6 milljörðum og var eigið fé Lauga neikvætt um 107 milljónir króna. Það var neikvætt um 268 milljónir í árslok 2011.