Rekstur sveitarfélagsins Snæfellsbæjar skilaði 127,3 milljón króna hagnaði og var afkoman því umtalsvert betri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir en samkvæmt fjárhagsáætlun var búist við 112,7 milljón króna tapi af rekstrinum. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallar.

Niðurstaðan skýrist samkvæmt tilkynningunni fyrst og fremst af því að skatttekjur voru hærri og fjármagnsgjöld voru lægri en gert hafði verið ráð fyrir. Þannig námu rekstrartekjur 1.559 milljónum króna en áætlað hafði verið að tekjur að upphæð 1.330 milljónir.

Heildareignir bæjarsjóðs námu 2,8 milljörðum króna og heildarskuldir hans um 1,4 milljörðum. Skuldir lækkuðu um 79 milljónir á milli ára. Veltufé frá rekstri er 251 milljón króna og handbært fé frá rekstri 250 milljónir.