Ársfundur Seðlabanka Íslands 2011
Ársfundur Seðlabanka Íslands 2011
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Ef hagnaður verður af gjaldeyrisútboði Seðlabankans mun hann að stærstum hluta renna til ríkissjóðs. Stefán Jóhann Stefánsson, upplýsingafulltrúi Seðlabankans segir að sérstakt samkomulag milli Seðlabanka og fjármálaráðuneytisins geri ráð fyrir þessu. „„Samkvæmt sérstöku samkomulagi á milli Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytis mun meginhluti af mögulegum hagnaði í þessum viðskiptum renna í ríkissjóð.“

Seðlabankinn kynnti fyrir helgi seinni legg í fyrsta útboði bankans sem ætlað er að koma aflandskrónum í hendur aðila sem vilja eiga þær til lengri tíma. Í fyrra skrefi keypti bankinn aflandskrónur af erlendum krónueigendum og greiddi fyrir með evrum úr gjaldeyrisforða bankans. Alls keypti bankinn aflandskrónur fyrir um 13,4 milljarða króna. Lágmarksverð var 215 krónur fyrir evru og var meðalverð samþykktra tilboða 218,9 krónur fyrir evru.

Seinni leggur er síðan útboð sem fer fram þann 28. júní næstkomandi, þar sem aðilum býðst til þess að kaupa þessar krónur í formi ríkisskuldabréfa til langs tíma, sem óheimilt er að selja í 5 ár. Greint var frá því á vef Viðskiptablaðsins í gær að samkvæmt útboðsgögnum er hámarksverð 210 krónur fyrir evru, og því ljóst að Seðlabankinn innleysir hagnað milli útboðanna tveggja, ef allt gengur samkvæmt áætlun. Seðlabankinn býðst til að kaupa 64 milljónir evra.

Hagnaðurinn gæti numið hundruðum milljóna, þó ómögulegt sé að segja til um hver lokaniðurstaða verður. Hún ræðst af gengi viðskiptanna og áhuga fjárfesta. Eins og áður segir mun hagnaðurinn að stærstum hluta renna til ríkissjóðs.