Hagnaður franska flugfélagsins Air France nam 247 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi. Dregst hagnaðurinn saman um 62% frá sama tímabili í fyrra þegar hann nam 641 milljón evra.

Flugfélagið hafði áður gefið það út að verkfall flugmanna í september myndi kosta félagið um 416 milljónir evra í tekjur. Við kynningu árshlutauppgjörsins kom fram að verkfallið og minnkandi eftirspurn á fjórða ársfjórðungi myndu draga hálfan milljarð evra frá áætluðum hagnaði félagsins á árinu, sem nam 2,3 milljörðum evra.

Tilkynnti félagið að það hygðist draga umtalsvert úr kostnaði á næsta ári.