Alþjóðlega álfyrirtækið Alcoa inc., móðurfélag Alcoa Fjarðarál, tilkynnti í dag að hagnaður félagsins á fyrsta ársfjórðungi hefði dregist saman um 92%. Samdrátturinn, sem kemur til vegna lækkunar á álverði í heiminum, gæti valdið því að allt að 2000 starfsmönnum fyrirtækisins verði sagt upp.

Alcoa inc. vinnur um þessar mundir að því að aðgreina þær viðskiptaeiningar sínar sem ganga hvað best í aðskilið félag sem mun bera heitið Arconic. Forsvarsmenn félagsins hafa ítrekað að haldið verði áfram með þessar fyrirætlanir þrátt fyrir samdráttinn og benda á að þessi hluti starfseminnar hafi skilað hagnaði á fyrsta ársfjórðungi.

Hagnaður Alcoa inc. lækkaði úr 195 milljónum bandaríkja dollurum árið áður í 16 milljónir bandaríkjadollara. Hagnaðurinn var því 15% lægri en áætlanir höfðu spáð fyrir um en fréttirnar hafa valdið því að hlutabréf félagsins hafa lækkað enn frekar. Í heildina hafa hlutabréf félagsins lækkað um 26% á síðustu 12 mánuðum.