Kínverska netverslunarfyrirtækið Alibaba, hagnaðist um 2,1 milljarða dollara á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Jókst hagnaður um 96% frá sama tímabili í fyrra. Tekjur félagsins námu 7,51 milljarði dollara og jukust um 56% frá sama tímabili í fyrra. Stærstur hluti tekjuaukningar félagsins var drifinn áfram af vexti í netverslun sem stendur fyrir 86% af tekjum félagsins.

Tekjur félagsins fóru fram úr væntingum greiningaraðila. Samkvæmt könnun Reuters var gert ráð fyrir tekjum upp á 7,15 milljarða dollara.

Frá því að uppgjör félagsins birtist hefur gengi hlutabréfa þess hækkað um 5,2% á eftirmarkaði. Hefur það orðið til þess að heildarmarkaðsverðmæti félagsins er komið upp fyrir 400 milljarða dollara. Gegni hlutabréfa félagsins stendur nú í 167,9 dollurum á hlut og hefur hækkað um 91% það sem af er þessu ári.