Hagnaður Alphabet, móðurfélags Google nam 3,5 milljörðum dollara á örðum ársfjórðungi þessa árs og dróst saman um 30% miðað við sama tímabil í fyrra. Hagnaður tímabilsins hefði verið 40% hærri ef ekki hefði verið fyrir 2,42 milljarða evra sekt sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði á fyrirtækið í lok júní.

Tekjur fyrirtækisins námu 26 milljörðum dollara og jukust um 21% milli ára. Þrátt fyrir auknar tekjur greindi fyrirtækið frá því að kostnaður væri að aukast hraðar en tekjur. Sagði fyrirtækið að kostnaður yrði áfram hár þar sem fleiri notendur nota snjallsíma til að nýta sér leitarþjónustu Google. Samkvæmt frétt Reuters jókst kostnaður vegna tekjueininga (e. cost of revenue) um 28% á tímabilinu.

Fréttirnar af auknum kostnaði urðu til þess að gengi hlutabréfa Alphabet hefur lækkað um 2,84% á eftirmarkaði eftir að uppgjör annars ársfjórðungs birtist. Gengi bréfanna stendur nú í 970,48 dollurum á hlut.