Hagnaður Amazon á öðrum ársfjörðungi þessa árs var minni heldur en greiningaraðilar gerðu ráð fyrir. Frá þessu er greint á vef Reuters .

Hagnaður Amazon á fjórðungnum nam 2,6 milljörðum dollara en greiningaraðilar á Wall Street höfðu gert ráð fyrir 2,8 milljörðum dollara.

Ástæðan fyrir því er sögð vera aukin áhersla fyrirtækisins á að koma pöntuðum vörum hraðar á vettvang og þar af leiðandi aukin útgjöld. Hlutabréfaverðið í fyrirtækinu hefur lækkað um meira en 1% á eftirmarkaði.

Sölutekjur fyrirtækisins jukust um 23% á fjórðungnum í 12 milljarða dollara meðan aðrar tekjur jukust um 37% í 3 milljarða dollara.

„Viðskiptavinir okkar eru að bregðast við þeirri stefnu okkar að koma vörum til fólks innan dagsins, Við höfum fengið góðar viðtökur á þessari stefnu og sölutekjurnar okkar hafa aukist," segir Jeff Bezos, forstjóri Amazon.

Amazon gerir ráð fyrir að hagnaður á þriðja ársfjórðungi þessa árs muni verða á milli 2,1 og 3,1 milljarði dollara. Spár höfðu gert ráð fyrir 4,4 milljörðum dollara.