Þrátt fyrir að hagnaður Apple hafi dregist saman um 22% á síðasta ársfjórðungi samanborið við sama tímabil í fyrra og að velta hafi aðeins aukist um 1% á sama tíma, tóku fjárfestar ársfjórðungsuppgjöri fyrirtækisins afar vel því kennitölurnar voru mun betri en búist hafði verið við. Velta fyrirtækisins á fjórðungnum nam 35 milljörðum dala og hagnaðurinn nam 6,9 milljörðum.

Gengi bréfa Apple hækkaði um ein 4% á eftirmarkaði í gær, en á síðustu tíu mánuðum hefur gengið lækkað um ein 40% frá toppnum sem gengið náði í september í fyrra.

Alls seldi Apple 31,2 milljónir iPhone síma á fjórðungnum sem er 20% aukning frá sama tímabili í fyrra og mun meira en gert hafði verið ráð fyrir. Í frétt CNN Money segir að sérfræðingar hafi búist við því að seldir iPhone símar yrðu 26 milljónir talsins.

Þá jókst velta í iTunes netversluninni um 29% milli ára og koma um 7% heildarveltu Apple í gegnum iTunes. Hins vegar dróst sala á iPad spjaldtölvum saman um 14% frá árinu á undan og sala á einkatölvum dróst saman um fimm prósent.