*

þriðjudagur, 11. ágúst 2020
Erlent 5. maí 2020 13:49

Hagnaður Apple umfram væntingar

Tekjur Apple stóðu nánast í stað á milli ára, en hagnaðurinn samsvarar 1,6 billjörðum króna. Aukin sala á þjónustu og snjallúrum.

Ritstjórn
Snjallúrin frá Apple náðu metsölu á síðasta ársfjórðungi félagsins.

Tekjur og hagnaður Apple fór fram úr væntingum greinenda á öðrum ársfjórðungi uppgjörsársins 2020 sem lauk 28. mars síðastliðinn, þó væru minni en félagið hafði upphaflega einsett sér að ná.

Þannig jókst heildarsala félagsins um 1% milli ára fyrir tímabilið, og nam hún 58,3 milljörðum Bandaríkjadala, en greinendur höfðu spáð því að salan myndi dragast saman í 54,5 milljarða dala.

Heildarhagnaðurinn dróst hins vegar eilítið saman, eða úr 11,6 milljörðum dala í ríflega 11,2 milljarða dala, en vegna gildandi endurkaupaáætlunar jókst hagnaður félagsins á hlut um 4%, eða í 2,55 dali. Samsvarar heildarhagnaðurinn um 1.647 milljörðum íslenskra króna, eða 1,6 billjörðum króna.

Vegna óvissunnar sem skapast hefur á mörkuðum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hefur félagið ekki lagt fram afkomuspá fyrir yfirstandandi ársfjórðung, en greinendur búast við 51,5 milljarða dala tekjum að því er CNBC greinir frá.

Félagið hefur ákveðið að halda áfram endurkaupaáætlun sinni og bætt við hana 50 milljörðum dala, auk útgreiðslu arðs sem nemur 82 sentum á hlut. Félagið greiddi á síðasta ári 67,1 milljarð dala fyrir eigin bréf auk útgreiðslu 14,1 milljarðs í arð til hluthafa.

Tekjur af sölu iPhone drógust saman úr 31,1 milljörðum dala í 29 milljarða dala milli ára. Á sama tíma jókst salan í ýmis konar þjónustu eins og Apple TV Plus, Apple Music og Apple Care sem öll voru með mettekjur, sem Business Insider segir vera því fleiri neyðast nú til þessa að vera heima við, auk þess sem sala á snjallúrum náði methæðum.

Stikkorð: Apple snjallúr Covid 19