Hagnaður olíurisans Saudi Aramco á fyrsta ársfjórðungi nam 39,5 milljörðum dala og hækkaði um 82% frá sama tímabili fyrir ári síðan. Um er að ræða mesta hagnað hjá félaginu á einum fjórðungi frá því að olíufyrirtækið var skráð á markað árið 2019. Financial Times greinir frá.

Rekstur Aramco og annarra olíufyrirtækja á borð við BP, Shell og ExxonMobil hefur gengið vel í kjölfar hækkandi olíuverðs í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Verð á tunnu af Brent hráolíu náði fjórtán ára hámarki í 139 dölum í mars síðastliðnum. Markaðsverð í dag er í kringum 110 dali á tunnu, sem er meira en helmingi hærra en fyrir ári síðan.

Framleiðsla Aramco, ríkisolíufyrirtækis Sádi-Arabíu, var ígildi 13 milljónum tunna á dag samanborið við 12,3 milljónir tunna meðaltal á öllu síðasta ári. OPEC-ríki hafa verið að vinda ofan af samkomulagi um minni framleiðslu sem ákveðið var í upphafi kórónuveirufaraldursins.

Sjá einnig: Apple ekki lengur verðmætast

Aramco, sem endurheimti sæti sitt af Apple sem verðmætasta fyrirtæki heims í síðustu viku, sagði að rekstrarniðurstöðuna megi helst rekja til hækkandi hráolíuverðs og bætta framlegð við olíuhreinsun.