Saudi Aramco, stærsta olíufyrirtæki heims, skilaði 25,5 milljarða dala hagnaði á öðrum ársfjórðungi, sem er nærri fjórföldun frá sama tímabili á síðasta ári. Hagnaðurinn var umfram spár greiningaraðila sem höfðu ráðgert að hann yrði nær 24,7 milljörðum dala samkvæmt Financial Times .

Stór ástæða fyrir góðu rekstrarniðurstöðu Aramaco er 30% hækkun á olíuverði frá áramótum en verðið fór yfir 70 dali á tunnu á síðasta fjórðungi. Það er að vísu aftur komið undir 69 dali í dag.

Olíurisinn, sem er að mestu í eigu sádi-arabíska ríkisins, hyggst greiða út 18,8 milljarða dala vegna annars ársfjórðungs.

Amin Nasser, forstjóri Aramco, gaf til kynna að fyrirtækið gæti hækkað arðgreiðslur í framtíðinni. Hann telur tækifæri fyrirtækisins liggja í að auka framleiðslugetu á sama tíma og stór olíufyrirtæki í vestrænum ríkjum horfa fram á að draga úr sinni olíuframleiðslu á komandi áratugum.

„Þar sem við horfum fram á mikla vanfjárfestingu í [olíu]framboði þá er þetta frábært tækifæri fyrir okkur, er haft eftir Nasser. „Við vinnum af kostgæfni að því að auka framboð.“