*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 13. október 2021 16:54

Hagnaður Arion 2 milljörðum yfir spám

Arion banki hagnaðist um 8,2 milljarða á síðasta ársfjórðungi, þriðjungi yfir spám greiningaraðila.

Júlíus Þór Halldórsson
Benedikt Gíslason er bankastjóri Arion banka.
Eyþór Árnason

Hagnaður Arion banka nam 8,2 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi samkvæmt drögum að uppgjöri fyrir tímabilið, tveimur milljörðum yfir meðalspá greiningaraðila. Allir liðir uppgjörsins komu betur út en spáð hafði verið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Afkoman svarar til 17% arðsemi eiginfjár á ársgrundvelli, en meðaltal og miðgildi 6 greiningaraðila upp á 6,2 milljarða hagnað hefði verið 13% arðsemi.

Frávikið frá spánum skýrist fyrst og fremst af tvennu. Virðisbreyting útlána var jákvæð um 700 milljónir, samanborið við spá upp á 63, og hagnaður af eignum til sölu var um 600 milljónir samanborið við 73 milljóna spá. Samanlagt skiluðu þessir tveir liðir því auka 1,2 milljörðum króna.

Rekstrartekjur fjórðungsins námu 15 milljörðum, þar af 12,7 milljörðum frá kjarnastarfsemi, en spár hljóðuðu upp á 14,2 milljarða rekstrartekjur og 12,5 milljarða frá kjarnastarfsemi. Hreinar fjármunatekjur námu 1,4 milljörðum sem er í samræmi við spár. Rekstrarkostnaður nam 5,6 milljörðum en spár höfðu hljóðað upp á 5,9.

Stikkorð: Arion banki