Afkoma Arion banka á fyrri helmingi ársins 2012 var jákvæð um 11,2 milljarða króna eftir skatta samanborið við 10,2 milljarða króna á árinu 2011. Arðsemi eigin fjár var 18,8% en var 20,3% á sama tímabili í fyrra.

Arion banki birti uppgjör sitt í dag. Stóru viðskiptabankarnir þrír hafa þá allir skilað hálfsársuppgjörum sínum en hagnaður Íslandsbanka var 11,6 milljarðar og hagnaður Landsbankans var 11,9 milljarðar króna.

Arðsemi af reglulegri starfsemi Arion banka var 11,8% en var 11,2% á fyrri hluta árs 2011. Eiginfjárhlutfallið hækkaði um 0,9 prósentur frá því í lok júní 2011 og er nú 22,3%.

Í tilkynningu til Kauphallar segir Höskuldir H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, að afkoman sé viðunandi og í samræmi við væntingar. Þrátt fyrir góðan rekstur vilji starfsmenn bankans sjá þóknanatekjur hækka og kostnað við rekstur lækka. Að því verði unnið á næstu misserum.

„Á tímabilinu höfum við selt hluti í félögum sem við höfum þurft að taka yfir og má þar nefna hluti í Högum, N1, BM Vallá og Pennanum. Þetta hefur gengið vel og hafði jákvæð áhrif á afkomu bankans upp á um tvo milljarða króna. Einnig hefur virðisbreyting útlána jákvæð áhrif sem nemur rúmum þremur milljörðum króna.

Við höfum á þessum fyrstu mánuðum ársins unnið að því að auka fjölbreyttni í fjármögnun bankans með útgáfu sértryggðra skuldabréfa, jafnt verðtryggðra sem óverðtryggðra. Markaðurinn hefur tekið útgáfu bankans með jákvæðum hætti og munum við halda áfram á þeirri braut,“ segir Höskuldur.

Árshlutareikningur Arion banka.