Hagnaður Arion banka eftir skatta nam 3,0 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi ársins 2011. Hagnaður á sama tíma í fyrra nam 3,4 milljörðum. Arðsemi eigin fjár var 11,3% á ársgrundvelli samanborið við 17,2% á sama tímabili í fyrra.

Í tilkynningu um uppgjörið kemur fram að eiginfjárhlutfall bankans styrktist og var 19,7% í lok tímabilsins. Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir í tilkynningunni að afkoman sé í samræmi við áætlanir. „Á undanförnum mánuðum höfum við haldið áfram á þeirri braut að styrkja grunnstoðir bankans og er eiginfjárhlutfall hans nú tæp 20% sem ber fjárhagslegum styrk gott vitni.

Við höfum lagt ríka áherslu á úrlausnarmál viðskiptavina okkar en þeirri vinnu miðar vel og mun klárast á þessu ári. Einnig höfum við unnið hörðum höndum að því að koma eignarhaldi fyrirtækja, sem bankinnh hefur tekið yfir, frá bankanum. Eru nú þrjú söluferli í gangi og ber þar hæst salan á Högum en fyrirhugað er að klára það ferli síðar á árinu með skráningu í Kauphöll," segir Höskuldur. „Við höfum orðið vör við mikinn áhuga og er það til vitnis um þá miklu getu sem er til staðar í hagkerfinu. Sama má segja um útlán banka, útlánagetan er til staðar en eftirspurnin er takmörkuð. Í þessu samhengi er mikilvægt fyrir efnahagsframvindu Íslands að eyða stjórnarfarlegri og lagalegri óvissu sem nú er til staðar og virkja þannig slagkraftinn og þá miklu fjárfestingargetu og fjárfestingarþörf sem býr í íslenska hagkefrinu sem og þá útlánagetu sem er í bankakerfinu.“

Helstu stærðir árshlutareiknings samkvæmt tilkynningu bankans:

• Hagnaður eftir skatta nam 3,0 mö.kr. á fyrsta fjórðungi ársins 2011 samanborið við 3,4 ma.kr. á sama tímabili árið 2010.

• Hreinar rekstrartekjur námu alls 9,5 mö.kr. á tímabilinu samanborið við 8,2 ma.kr. árið 2010.

• Hreinar vaxtatekjur á tímabilinu námu 5,9 mö.kr. samanborið við 5,6 ma.kr. árið 2010.

• Hreinar þóknanatekjur námu 2,5 mö.kr. samanborið við 1,5 ma.kr. á sama tímabili 2010. Aukningin skýrist einkum með tilkomu nýrra dótturfélaga.

• Arðsemi eigin fjár var 11,3% en var 17,2% á sama tímabili árið 2010.

• Vaxtamunur af meðalstöðu vaxtaberandi eigna var 3,4% á tímabilinu samanborið við 3,1% á sama tímabili árið 2010.

• Reiknaður tekjuskattur á fyrsta ársfjórðungi nam 1,0 ma.kr. en var 0,7 ma.kr. fyrir sama tímabil árið 2010. Sérstakur bankaskattur nam 67 milljónum á tímabilinu.

• Kostnaðarhlutfall á ársfjórðungnum var 51,8% samanborið við 43,7% á sama tímabili ársins 2010 sem skýrist fyrst og fremst af óreglulegum liðum.

• Eiginfjárhlutfall var 19,7% samanborið við 19,0% í lok árs 2010. FME gerir kröfu um 16% eiginfjárhlutfall.

• Lausafjárhlutfall bankans var 36,0% sem er vel yfir 20% kröfu FME.

• Reiðufjárhlutfall bankans var 16,0%, en FME gerir kröfu um 5%.

• Útlán til viðskiptavina námu 432,5 mö.kr. í lok tímabilsins samanborið við 451,2 ma.kr. í lok árs 2010.

• Innlán viðskiptavina námu 472,4 mö.kr. samanborið við 457,9 ma.kr. í árslok 2010.

• Heildareignir námu 802,7 mö.kr., samanborið við 812,6 ma.kr. í árslok 2010.

• Eigið fé bankans í lok fyrsta ársfjórðungs 2011 var 112,7 ma.kr. en nam 109,5 ma.kr í lok árs 2010.

• Í lok tímabilsins voru 1.273 stöðugildi hjá samstæðunni, samanborið við 1.260 í lok árs 2010. Þar af voru stöðugildi hjá Arion banka 965 samanborið við 981 í árslok 2010.