Arion banki hagnaðist um 1,4 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er talsverður samdráttur á milli ára en á fyrsta ársfjórðungi í fyrra nam hagnaður bankans 4,5 milljörðum króna. Kostnaðarhlutfall bankans eykst talsvert frá í fyrra m.a. vegna varúðarfærslu vegna sektar Samkeppniseftirlitsins á kortafyrirtækið Valitor.

Í uppgjöri bankans kemur fram hagnaður af kjarnastarfsemi var 2,1 milljarður króna samanborið við 3,6 milljarða í fyrra. Rekstrartekjur námu 8,8 milljörðum sem var 2,1 milljarði minna en á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Lækkunin skýrist af minni gengismun, að því er segir í uppgjöri bankans. Þá námu hreinar vaxtatekjur 6,3 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins og var það óbreytt á milli ára.

Í uppgjörinu segir að arðsemi eigin fjár var 4,3% samanborið við 16,5% á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Arðsemi af kjarnastarfsemi var 6,3% en var 12,5% í fyrra. Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 24,1% en um síðustu áramót var það 24,3%. Þá nam arðsemi eigin fjár 4,3% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 16,5% í fyrra.

Heildareignir námu 907,5 milljörðum króna samanborið við 900,7 milljarða króna í árslok 2012.

Sekt á Valitor tekur í

Tekið er fram í uppgjörinu að kostnaðarhlutfall Arion banka á fyrsta ársfjórðungi jókst verulega frá í fyrra. Það var 72,6% á fyrsta ársfjórðungi en var 53,1% í fyrra. Hátt hlutfall nú skýrist m.a. af varúðarfærslu vegna sektar samkeppnisyfirvalda á Valitor en Samkeppniseftirlitið sektaði Valitor í apríl um 500 milljónir króna fyrir að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Kostnaðarhlutfall af kjarnastarfsemi nam 66,7% samanborið við 51,4% á sama tímabili 2012, að því er segir í uppgjörinu.