Hagnaður Arion banka nam 17,4 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er margfalt meiri hagnaður en á sama tíma í fyrra þegar hann nam 5,9 milljörðum króna. Aukningin nemur næstum tæplega 195% á milli ára. Þar af nam hagnaðurinn á öðrum ársfjórðungi 14,5 milljaröðum króna borið saman við 4,5 milljarða á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri Arion banka að rekstrartekjur bankans námu 25,7 milljörðum króna borið saman við 20,7 milljarða á sama tíma í fyrra. Hækkunin hefur átt sér stað í öllum þáttum rekstrarins nema í hreinum vaxtatekjum. Mesta hækkunin skilaði sér í hreinum fjármunatekjum. Þá kemur fram að hreinar vaxtatekjur námu 12 milljörðum króna borið saman við 12,7 milljarða í fyrra. Þá nam hagnaður af aflagðri starfsemi 6,5 milljörðum króna. Þessi liður skilaði 65 milljóna króna tapi á sama tíma í fyrra. Hagnaðurinn er nær eingöngu tilkominn vegna sölu á 18,8% hlut Arion banka í HB Granda.

Haft er eftir bankastjóranum Höskuldi H. Ólafssyni í uppgjörstilkynningu að afkoma bankans á fyrstu sex mánuðum ársins sé mjög góð og í takt við væntingar.