Hagnaður Arion banka nam 12,7 milljörðum króna á árinu 2013 en hann hefur dregist saman um 4,4 milljarða króna frá árinu 2012 þegar hagnaðurinn nam 17,1 milljarða króna. Arðsemi eigin fjár dróst einnig saman á milli ára en hún nemur á árinu 2013 9,2% samanborið við 13,8% árið 2012.

Samkvæmt ársuppgjöri Arion banka hefur hann dregið úr áhættu í rekstri með aukinni langtímafjármögnun og hækkuðu hlutfalli lána til einstaklinga sem námu í árslok tæpum 49% af heildarlánum til einstaklinga. Til viðbótar jukust ný útlán um 60% milli ára auk þess sem að útlán til viðskiptavina jukust um 12% frá árinu 2012 til 2013.

Höskuldur Ólafsson segir í tilkynningu vegna uppgjörsins að stórkostleg auking á opinberum álögum setur sitt mark á uppgjörið: „Vegna rekstrar ársins 2013 greiðir Arion banki um 6,6 milljarða króna í skatta og þar af tæpa 2,9 milljarða vegna bankaskatts, sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki sem stjórnvöld margfölduðu undir lok árs 2013 til að fjármagna áform um skuldaleiðréttingar verðtryggðra húsnæðislána. Bankaskatturinn leggst á skuldir fjármálafyrirtækja, sem fyrst og fremst eru innlán einstaklinga og fyrirtækja. Gera verður ráð fyrir að aðgerðir sem eru þetta íþyngjandi hafi áhrif á starfsemi og þjónustu fjármálafyrirtækja. Þetta er að miklu leyti skattur á innlán og mun sem slíkur hafa neikvæð áhrif á þau kjör og þjónustu sem fjármálafyrirtæki geta boðið viðskiptavinum sínum.“