Arion banki hagnaðist um milljarð á fyrsta ársfjórðungi ársins, sem er tæp helmingun frá 1,9 milljarða hagnaði á sama fjórðungi í fyrra. Afkoman litast töluvert af óreglulegum liðum, en regluleg starfsemi bankans fer batnandi, að sögn Stefáns Péturssonar, starfandi bankastjóra. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri félagsins.

Hreinar vaxtatekjur námu 7,4 milljörðum og jukust um 8,9% milli ára, og hreinar þóknanatekjur námu 2,2 milljörðum og jukust óverulega. Arðsemi eigin fjár nam 2,1% samanborið við 3,6% árið áður, en að Valitor undanskildu nam hún 6,8% samanborið við 4,8%.

Heildareignir námu 1.223 milljörðum í lok fjórðungsins og jukust um 5% milli ára, og eigið fé nam 193 milljörðum og lækkaði um 4%. Eiginfjárhlutfall nam 22,3%, samanborið við 22% um áramótin.

Haft er eftir Stefáni að gjaldþrot Wow air og dómur Héraðsdóms í máli Valitor gegn DataCell og Sunshine Press Productions hafi haft neikvæð áhrif á afkomuna, en sala á hlut bankans í Farice hafi vegið upp á móti.