Hagnaður Arion banka á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 2,9 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 1,4 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár var 7,8% samanborið við 4,3% á sama tímabili árið 2013. Arðsemi af kjarnastarfsemi var 5,9% en var 7,6% á sama tímabili árið 2013. Heildareignir námu 933,1 milljarði króna samanborið við 938,9 milljarða króna í árslok 2013. Eiginfjárhlutfall bankans í lok tímabilsins var 22,5% en var 23,6% í árslok 2013.

„Afkoma bankans á fyrsta ársfjórðungi er viðunandi. Hagnaðurinn eykst nokkuð samanborið við fyrsta ársfjórðung síðasta árs, þrátt fyrir aukna skattbyrði, og er arðsemi eiginfjár 7,8%. Þrátt fyrir það lækka tekjur bankans og þá fyrst og fremst vegna lægri vaxtamunar þar sem verðbólga er lægri á tímabilinu en fyrir ári síðan. Að auki hafa markaðsaðstæður verið með þeim hætti að virði eigna bankans í verðbréfum og gjaldeyri lækkar á tímabilinu,“ segir Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, í afkomutilkynningu.