Breska netverslunin Asos virðist hafa notið góðs af samkomutakmörkunum vegna kórónuveirunnar en tekjur félagsins jukust um 24% og afkoman um 275% milli ára að því er kemur fram í hálfsárs uppgjöri fyrirtækisins sem lauk þann 28. febrúar. Skynews greinir frá.

Hagnaður Asos, sem rekur netverslun fyrir fataverslanir og snyrtivörur, nam 113 milljónum punda fyrir skatta á þessu sex mánaða tímabili en á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 30 milljónum. Tekjur netverslunarinnar námu ríflega tveimur milljörðum punda, sem er um 24% aukning frá fyrra ári. Notendafjöldi Asos jókst um rúmlega 1,5 milljón og eru notendur netverslunarinnar um 25 milljónir talsins í dag.

Fyrr á árinu var tilkynnt um að Asos myndi kaupa vörumerkin Topshop, Topman og Miss Selfridge úr þrotabúi Arcadia veldis Philip Green fyrir 330 milljónir punda en verslanir fatamerkjanna voru ekki innifaldar í kaupunum. Einungis 300 af 2.500 starfsmönnum Arcadia verslananna fengu störf hjá Asos eftir verslununum var lokað. Asos á þó enn eftir að ákveða hvort opna eigi Topshop verslunina á Oxford stræti aftur en hún yrði þá eina hefðbundna fataverslun fyrirtækisins.

Hlutabréf Asos hafa lækkað um 1,5% í viðskiptum í bresku Kauphöllinni í dag. Hins vegar hefur hlutabréfaverð fyrirtækisins hækkað um 185% á ársgrundvelli.