Hagnaður Atlantic Airways nam á fyrri helmingi ársins 1,4 milljón danskra króna, andvirði um 28 milljóna íslenskra króna, en var 7,8 milljónir danskra króna á sama tíma í fyrra. Á öðrum ársfjórðungi nam hagnaðurinn 5,7 milljónir í ár, en var 9,9 milljónir danskra króna á sama tímabili í fyrra.

Í tilkynningu frá félaginu segir að hagnaður fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) hafi verið 31,7 milljónir danskra króna, en var 32,2 milljónir á sama tímabili í fyrra, sem er samdráttur um tvö prósent.

Félagið segir í tilkynningunni að ástæður lakari afkomu séu m.a. kostnaður við nýja flugvél og að leiguflug í Evrópu hafi ekki skilað þeim árangri sem vonast hafði verið til. Áætlunarflug hafi einnig skilað minna fé í kassann og þá hafði styrking bandaríkjadals neikvæð áhrif á afkomuna. Engin breyting varð á gengi bréfa félagsins í Kauphöllinni í dag.