*

miðvikudagur, 27. janúar 2021
Innlent 27. september 2020 12:03

Hagnaður Atlantsolíu eykst

Eignir Atlantsolíu námu 5,4 milljörðum í lok árs 2019 og ársverk voru 13. Hagnaður félagsins jókst um nær þriðjung.

Ritstjórn
Guðrún Ragna Garðarsdóttir er forstjóri Atlantsolíu.
Gígja Einars

Atlantsolía hagnaðist um 301 milljón króna árið 2019 samanborið við 234 milljónir árið áður sem gerir um 29% aukningu. Rekstrartekjur félagsins jukust um 32% milli ára og námu ríflega 6,5 milljörðum króna á síðasta ári.

Kostnaðarverð seldra vara jókst um 35% milli ára og skrifstofu- og stjórnunarkostnaður jókst um rúmlega 16% og nam 475 milljónum. Rekstrarhagnaður nam 464 milljónum en 349 milljónum árið áður.

Sjá einnig: Olíufélögin fá þungt högg

Eignir námu 5,4 milljörðum króna við lok árs og jukust um 29%. Þar af námu fastafjármunir 4,8 milljörðum króna. Bókfært verð fasteigna, stöðva og tækja var ríflega fjórir milljarðar en krafa á tengd félög nam tæplega 2,3 milljörðum. Skuldir námu fjórum milljörðum og eigið fé 1,5 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall Atlantsolíu í lok árs 2019 var 27%.

Í ársreikningi félagsins kemur fram að „mjög óvenjulegar aðstæður hafa nú skapast vegna Kórónuveirunnar Covid-19. Veruleg óvissa er um hvaða áhrif þessi staða mun hafa á félagið. Það er þó mat stjórnenda félagsins að ekki sé vafi um rekstrarhæfi vegna þessa.“

Sjá einnig: Olíufélögin á krossgötum

Ársverk félagsins voru tæplega 13 og fækkaði þeim um fjögur milli ára. Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í sumar að félagið hyggst halda áfram að leggja áherslu á sölu jarðefniseldsneytis.

Áherslur hinna olíufélaganna eru aðrar. N1, sem er í eigu Festi, hefur til að mynda nýlega fest kaup á Íslenskri Orkumiðlun. Skeljungur hefur nýlega keypt keypt land í Mosfellsbæ og fjórðungshlut í Gló og Brauð & Co. Olís, sem er í eigu Haga, á hreinlætisfyrirtækið Mjöll Frigg.