Atlantsolía hagnaðist um 301 milljón króna árið 2019 samanborið við 234 milljónir árið áður sem gerir um 29% aukningu. Rekstrartekjur félagsins jukust um 32% milli ára og námu ríflega 6,5 milljörðum króna á síðasta ári.

Kostnaðarverð seldra vara jókst um 35% milli ára og skrifstofu- og stjórnunarkostnaður jókst um rúmlega 16% og nam 475 milljónum. Rekstrarhagnaður nam 464 milljónum en 349 milljónum árið áður.

Sjá einnig: Olíufélögin fá þungt högg

Eignir námu 5,4 milljörðum króna við lok árs og jukust um 29%. Þar af námu fastafjármunir 4,8 milljörðum króna. Bókfært verð fasteigna, stöðva og tækja var ríflega fjórir milljarðar en krafa á tengd félög nam tæplega 2,3 milljörðum. Skuldir námu fjórum milljörðum og eigið fé 1,5 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall Atlantsolíu í lok árs 2019 var 27%.

Í ársreikningi félagsins kemur fram að „mjög óvenjulegar aðstæður hafa nú skapast vegna Kórónuveirunnar Covid-19. Veruleg óvissa er um hvaða áhrif þessi staða mun hafa á félagið. Það er þó mat stjórnenda félagsins að ekki sé vafi um rekstrarhæfi vegna þessa.“

Sjá einnig: Olíufélögin á krossgötum

Ársverk félagsins voru tæplega 13 og fækkaði þeim um fjögur milli ára. Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í sumar að félagið hyggst halda áfram að leggja áherslu á sölu jarðefniseldsneytis.

Áherslur hinna olíufélaganna eru aðrar. N1, sem er í eigu Festi, hefur til að mynda nýlega fest kaup á Íslenskri Orkumiðlun. Skeljungur hefur nýlega keypt keypt land í Mosfellsbæ og fjórðungshlut í Gló og Brauð & Co. Olís, sem er í eigu Haga, á hreinlætisfyrirtækið Mjöll Frigg.