Hagnaður Atlantsolíu nam 90 milljónum króna í fyrra en var 204 milljónir króna árið 2016 og lækkar því um 56% milli ára. Hagnaðurinn er þó nokkru meiri en árið 2015 þegar hagnaðurinn nam 50 milljónum króna.

Rekstrartekjur Atlantsolíu lækkuðu úr 4,6 milljörðum króna í 4,2 milljarða króna á milli ára.  Rekstrarhagnaður nam 194 milljónum króna á síðasta ári en var 315 milljónir króna fyrir ári. 19 stöðugildi voru hjá félaginu bæði árin 2016 og 2017. Atlantsolía greiddi 246 milljónir króna í laun og launatengd gjöld í fyrra en 240 milljónir króna árið 2016.

Eignir Atlantsolíu námu 3,9 milljörðum króna um síðustu áramót, eigið fé 931 milljón króna og skuldir 3 milljörðum króna. Handbært fé frá rekstri nam 61 milljón króna árið 2017 en var 492 milljónir króna árið 2016.

Ekki var greiddur arður hjá félaginu á síðasta ári og samkvæmt ársreikningnum hefur ekki verið tekin ákvörðun um arðgreiðslu á þessu ári.

Félagið var auglýst til sölu síðasta vetur en það er í eigu Guðmundar Kjærnested og Brandon Charles Rose.