Framtakssjóðurinn AUÐUR I sem rekinn er af Virðingu skilaði 560 milljóna króna hagnaði á árinu 2014. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Heildareignir sjóðsins í árslok námu 3.470 milljónum króna og jukust um rúmlega 20% á milli ára að teknu tilliti til sölu á hlut sjóðsins í Securitas og annarra endurgreiðslna á árinu. Ávöxtun sjóðsins er um 9,5% á ári frá upphafi.

Sjóðurinn á hlut í 6 rekstrarfélögum og eru hlutir í Ölgerðinni, Já upplýsingaveitum og Íslenska Gámafélaginu stærstu eignir sjóðsins.

„Eignasafn Auðar I er sterkt og fjölbreytt og hefur sjóðurinn skilað fjárfestum góðri ávöxtun frá upphafi. Auður I seldi sína fyrstu eign í fyrra með sölu á 20% hlut í Securitas með mjög góðri ávöxtun auk þess sem sum félög sjóðsins náðu sínum besta rekstrarárangri frá upphafi,“ segir Baldur Már Helgason, framkvæmdastjóri Auðar I.