Hagnaður Bakkavarar nam 7,8 milljónum punda, jafnvirði 1.475 milljóna íslenskra króna í fyrra. Þetta er 270% meiri hagnaður í pundunum talið en árið 2012 en þá nam hann 2,1 milljón punda. Á fjórða ársfjórðungi tapaði Bakkavör hins vegar 13,8 milljónum punda, jafnvirði 2,6 milljarða króna. Á fjórða ársfjórðungi árið 2012 nam tap Bakkavarar hins vegar 3,2 milljónum punda.

Fram kemur í uppgjöri félagsins að velta nam 1.650 milljónum punda, jafnvirði 312 milljarða íslenskra króna, á öllu síðasta ári sem var 3,9% aukning á milli ára. Á fjórða ársfjórðungi nam veltan 416,3 milljónum punda sem var 4,2% aukning frá fyrra ári.

Rekstrarhagnaður nam hins vegar 43,1 milljónum punda á síðasta ári sem var 24,1% samdráttur frá árinu 2012. Þar af nam tapið á fjórða ársfjórðungi 5 milljónum punda borið saman við 13,5 milljóna punda rekstrarhagnað árið 2012. Tapið nam 11,6 milljónum punda af áframhaldandi starfsemi í fyrra sem var viðsnúningur frá 1,3 milljóna punda hagnaði árið 2012. Tapið nam heilum 14,7 milljónum punda á fjórða ársfjórðungi borið saman við 4,1 milljóna punda tap á sama fjórðungi árið 2012.

Mikil uppstokkun

Samkvæmt upplýsingum frá Bakkavör einkenndist síðasta ár af miklum breytingum jafnt utan sem innan Bretlands. Að viðbættu erfiðu rekstrarumhverfi innan Bretlands þá seldi Bakkavör nokkrar verksmiðjur í öðrum löndum, s.s. í Kína, Spáni og Kanada og lauk við að stokka upp í framleiðslunni. Þá lauk fyrirtækið við endurfjármögnun rekstrarfélaga . Það var gert að hluta árið 2011 en lauk að fullu um mitt síðasta ár. Fjármögnunin reyndist fyrirtækinu kostnaðarsöm og setur það mark sitt á uppgjör Bakkavarar.