Hagnaður spænska risabankans Banco Santander nam 47 milljónum evra á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Þetta er hrun upp á 98% á milli ára. Tekjur námu 5,35 milljörðum evra sem er 35% samdráttur.

Nýjar reglur um fjármálafyrirtæki sem kveða á um niðurfærslu á fasteigna- og jarðalánum í bókum bankans skýra dapra afkomu að stórum hluta auk þess sem stjórnendur bankans færðu 1,8 milljarða evra á varúðarreikning. Bankinn færði samtals 3,2 milljarða evra á reikninginn í fyrra.

Í umfjöllun Bloomberg-fréttaveitunnar um uppgjör bankans segir að skuldakreppan á evrusvæðinu og erfiðleikar henni tengdri hafi komið illa við reksturinn. Gangur bankans í Suður-Ameríku hífir afkomuna hins vegar upp en reksturinn þar á um helmingshlutdeild í heildarhagnaði Banco Santander í fyrra. Reksturinn á meginlandi Evrópu á um þriðjungshlutdeild.

Gengi hlutabréfa Banco Santander hækkaði um 1,3% við upphaf viðskiptadagsins í kauphöllinni í Madrid í dag. Gengið ber þess vitni að reksturinn hafi látið á sjá en það hrundi um 33% í fyrra.