Bank of America hefur birt uppgjör sitt fyrir fjórða ársfjórðung. Þar kemur fram að hagnaður bankans hafi dregist saman á tímabilinu um 11%. Wall Street Journal greinir frá.

Hagnaður bankans á tímabilinu nam 3,05 milljörðum bandaríkjadala, en það jafngildir næstum 400 milljörðum íslenskra króna. Á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 3,44 milljörðum.

Nokkur samdráttur varð í tekjum bankans eða sem nemur 13%. Námu þær nú 18,73 milljörðum bandaríkjadala en sérfræðingar höfðu búist við tekjum upp á nær 21 milljarð.

Hlutabréf bankans lækkuðu á markaði um 2,5% eftir að hann kynnti uppgjörið í dag.