Hagnaður Barclays banka nam 845 milljónum punda í fyrra, samanborið við 1.297 milljónir punda árið 2013 og dróst hagnaður fyrir skatta saman úr 2.868 milljónum punda í 2.256 milljónir á sama tíma.

Í frétt BBC segir að bankinn hafi þurft að stækka varúðarfærslu vegna hugsanlegrar sektar fyrir markaðsmisnotkun á gjaldeyrismarkaði úr 750 milljónum punda í 1.250 milljónir og hefur það áhrif á afkomuna. Sé horft framhjá þessum vaúðarfærslum og öðrum einskiptiskostnaði hækkar hagnaður fyrir skatta í 5,5 milljarða punda og hagnaður eftir skatta í 3,8 milljarða.

Forstjóri bankans, Antony Jenkins, fékk bónusgreiðslu upp á 1,1 milljón punda og er það í fyrsta sinn sem hann fær bónus sem forstjóri. Hins vegar minnkuðu heildarbónusgreiðslur bankans um 22% og námu 1,86 milljörðum punda. Jenkins hefur varið greiðsluna og bent á að rekstrarkostnaður bankans hafi lækkað um 9%.