Breski bankinn Barclays hagnaðist um 3,14 milljarða punda fyrir skatta á fyrri helmingi ársins, en það er um fjórðungi meira en á sama tímabili í fyrra þegar hagnaðurinn nam 2,55 milljörðum punda. BBC News greinir frá uppgjöri bankans.

Innan við mánuður er síðan John McFarlane, nýr stjórnarformaður bankans, rak forstjóran Antony Jenkins. Sá hafði tekist á við stjórn fyrirtækisins um kostnaðaraðhald og hlaut bágt fyrir. Vildu stjórnarmenn ganga lengra í niðurskurði í rekstrinum. „Það sem við þurfum er meiri hagnaður. Barclays er ekki hagkvæmur. Við erum klunnalegir,“ sagði McFarlane við það tilefni.

Nú er þess vænst að mikil endurskipulagning muni eiga sér stað í rekstri bankans og vænta stjórnendur hans að það muni skila eigendum hans auknum hagnaði.

Gengi hlutabréfa í Barclays hækkaði um 2% eftir birtingu uppgjörsins.