Hagnaður hins breska Barclays banka nam 1,8 milljarði punda og er það 25% minni hagnaður en fyrstu tölur frá bankanum gáfu tilefni til að ætla. Hagnaðurinn minnkaði um 514 milljónir punda vegna kostnaðar við endurskipulagningu bankans sem m.a. felur í sér að fækka á starfsfólki um 3.700. Þá er gert ráð fyrir því að síðar á árinu bætist aðrar 500 milljónir punda við kostnaðinn.

Þá á að skera niður í fjárfestingararmi bankans, sem þó skilaði 11% meiri hagnaði á fjórðungnum. Hagnaður af fjárfestingarbankastarfsemi var um 75% af heildarhagnaði Barclays á tímabilinu.

Afkoman á fyrsta fjórðungi í ár er þó mun betri en á sama tíma í fyrra, þegar bankinn skilaði 525 milljóna punda tapi.

Forstjóri bankans, Antony Jenkins, hefur lagt mikla áherslu á að bæta ímynd Barclays, sem beið töluverðan hnekki vegna þátttöku hans í Libor-vaxtahneykslinu.