Lögmannsstofan BBA Legal hagnaðist um rúmar 250 milljónir króna á síðasta ári, en það er öllu meira en ári fyrr þegar hagnaðurinn nam 134 milljónum króna. Eignir stofunnar námu 404 milljónum króna í árslok en skuldir voru 153 milljónir króna. Nam eigið fé stofunnar því 252 milljónum króna.

Í ársreikningi lögmannsstofunnar kemur fram að hún ráðstafaði öllum hagnaði síðasta árs, 134 milljónum króna, í arðgreiðslur til eigenda. Sé miðað við að hið sama sé uppi á teningnum í ár munu eigendur fá greiddar 250 milljónir króna í arð vegna síðasta fjárhagsárs.

Stærstu eigendur BBA Legal eru  Bjarki H. Diego, Ásgeir Á. Ragnarsson, Baldvin Björn Haraldsson og Einar Baldvin Árnason, og eiga þeir hver um sig fimmtungshlut í félaginu. Mun því hver þeirra fá 50 milljónir króna í sinn hlut verði öllum hagnaði ársins varið í arðgreiðslur.