Björgun ehf., sem framleiðir steinefni til hvers konar mannvirkjagerðar á Íslandi, hagnaðist um 21,7 milljónir króna árið 2016 borið saman við 196,5 milljónir árið áður. Dróst hagnaðurinn því saman um 89% milli ára.

Rekstrartekjur námu 906,4 milljónum en voru tæplega 1,3 milljarðar árið áður. Rekstrargjöld voru 767,4 milljónir samanborið við 889,6 milljónir árið áður. Rekstrarhagnaður var 34,4 milljónir árið 2016 en 266,6 milljónir árið á undan.

Í árslok 2016 námu eignir Björgunar 1,1 milljarði króna. Þar af var eigið fé tæplega 957 milljónir og eiginfjárhlutfall 84%. Handbært fé frá rekstri nam tæplega 192 milljónum. Handbært fé í árslok 2016 var um 5 milljónir.

Greiddur var út arður upp á 40 milljónir til hluthafa á árinu. Eignarhald Björgunar er rakið til norska sementframleiðandans Norcem AS, dótturfélags þýska byggingarfyrirtækisins HeidelbergCement, og innlendra verktaka, múrarameistara, byggingarmeistara, athafnamanna og fleiri einstaklinga. Framkvæmdastjóri Björgunar er Lárus Dagur Pálsson.