Bláa lónið hagnaðist um 26,4 milljónir evra á síðasta ári eða því sem nemur um 3,7 milljörðum króna. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem birtur var fyrir skömmu. Hagnaður fyrirtækisins dróst saman um 17,5% í milli ára þegar hann nam 31 milljón evra. Tekjur félagsins námu 122,6 milljónum evra á síðasta ári eða um 17,4 milljörðum króna og jukust um 20% milli ára.

Eignir félagsins námu í lok síðasta árs 157,2 milljónum evra eða um 22,3 milljörðum króna. Eigið fé félagsins var 87,8 milljónir evra og eiginfjárhlutfall því um 56%. Á aðalfundi sem fram fór í dag var samþykkt að greiða út um 30 milljóna evra arðgreiðslu til eigenda eða því sem nemur um 4,3 milljörðum króna.

Haft er eftir Grími Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins, í fréttatilkynningu:

„Bláa Lónið er upplifunarfyrirtæki. Allar okkar fjárfestingar í gegnum árin hafa miðað að því að byggja upp starfsemi í kringum einstaka upplifun gesta okkar. Á árinu var nýtt hótel og upplifunarsvæði undir merkjum The Retreat opnuð ásamt tveimur nýjum veitingastöðum. Með þessari uppbyggingu tók Bláa Lónið mikilvæg skref til að þjónusta nýjan markhóp, ferðamenn sem leita eftir afar miklum gæðum, svokallaða fágætisferðamenn. Öflugt og gott starfsfólk er auðlind Bláa Lónsins. Starfsfólk af 42 þjóðernum starfaði í Bláa Lóninu. Bláa Lónið hefur ávallt lagt mikla áherslu á umhverfismál og sjálfbærni og látið sér annt um það einstaka umhverfi sem umlykur Bláa Lónið. Eitt stærsta framtak Bláa Lónsins til umhverfismála er óneitanlega fullnýting jarðsjávarins. Starfsemi fyrirtækisins byggir á traustum grunni. Við munum halda áfram að hlúa að og þróa starfsemi Bláa Lónsins ásamt því að leggja okkar af mörkum til að stuðla að jákvæðri upplifun ferðamanna á Íslandi og sjálfbærum vexti. Við höfum mikilvægu hlutverki að gegna sem leiðandi fyrirtæki í ferðaþjónustu hér á landi. Skattspor Bláa Lónsins nam um 5 milljörðum króna árið 2018 og stækkaði um 56% frá árinu 2017 en þá var það í hópi þeirra tíu fyrirtækja sem borguðu mesta skatta og opinber gjöld á Íslandi.“