Stærsta eignarstýringarfyrirtæki í heimi, BlackRock, hagnaðist um ríflega 1,2 milljarða dollara á þriðja ársfjórðungi þessa árs en félagið birti uppgjör sitt fyrir tímabilið fyrr í dag. Hagnaður félagsins jókst um 26% frá sama tímabili í fyrra en aukinn hagnað má að mestu rekja til skattalækkana í Bandaríkjunum en virkt skatthlutfall fyrirtækisins var 15,7% á fjórðungnum samanborið við 31,9% á sama tíma í fyrra.

Hagnaður nam 7,52 dollurum á hlut sem var töluvert yfir væntingum greiningaraðila en meðaltal þeirra hafði gert ráð fyrir 6,84 dollara hagnaði á hlut samkvæmt CNBC . Tekjur félagsins á fjórðungnum námu 3.576 milljónum dollara sem var 72 milljónum lægra en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir. Þá námu tekjur af ráðgjafar, stjórnunar og fjármögnunarþjónsutu (e.  advisory, administration and lending business) 2,88 milljörðum dollara en greiningaraðila höfðu gert ráð fyrir tekjum upp á 2,97 milljarða dollara.

Urðu fréttir af lægri tekjum en gert hafði verið ráð fyrir til þess að hlutabréfaverð BlackRock lækkaði um 5% við opnun markaða vestanhafs en þegar þetta er skrifað nemur lækkunin um 3,3%.

Eignir í stýringu námu 6.444 milljörðum dollara í lok september og jukust um 2,9% frá því í lok annars ársfjórðungs. Eignir undir stýringu voru þó 54 milljörðum lægri en gert hafði verið ráð fyrir. Það sem vekur töluverða athygli í uppgjöri félagsins er að eignir í vísitölusjóðum drógust saman um 24,8 milljarða dollara á fjórðungum en stærstur hluti sjóðanna voru á bandarískum markaði.