Hagnaður þýska bílaframleiðandans BMW nam 2,21 milljarði evra á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Jókst hagnaður um tæp 14% miðað við sama tímabil í fyrra. Samkvæmt frétt CNBC er aukinn hagnaður rakinn til þess að nýjasta útgáfa af 5-Series sedan bílum BMW hefur selst vel.

Samkvæmt Harald Krueger forstjóra BMW tryggir góð afkoma að fyrirtækið geti aukið umsvif sín enn frekar í þróun á rafmagns- og sjálfkeyrandi bílum. Sagði hann að miklar breytingar væru fram undan í bílaiðnaði og það væri mikilvægt að fyrirtækið væri tilbúið til að takast á við þær.

Þrátt fyrir að rafmagnsbílar séu enn sem komið er lítill hluti af starfsemi BMW þá seldi fyrirtækið 42.600 rafmagnsbíla á ársfjórðungnum sem er 80% aukning frá sama tímabili í fyrra.