Hagnaður þýska bílaframleiðandans BMW nam á þriðja ársfjórðungi 1,6 milljörðum evra og jókst um 21% á milli ára.

Í frétt BBC kemur fram að uppgjörið sé langt umfram væntingar greiningaraðila. Hlutabréf félagsins hafa hækkað um 2,8% á markaði í Þýskalandi í dag.

Sala félagsins jókst um 9% á milli ára á tímabilinu og að mestu leyti má rekja til aukinnar sölu í Kína. Félagið hefur selt um 1,2 milljónir bíla fyrstu níu mánuði ársins, en þá hefur salan í Kína aukist um 20% á milli ára á sama tímabili.