Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hagnaðist um 1.167 milljónir dollara á þriðja ársfjórðungi þessa árs og dróst hagnaður félagsins saman um 51% frá sama tímabili í fyrra en félagið birti uppgjör sitt nú fyrir skömmu. Hagnaður á nam 1,45 dollurum á hlut sem var töluvert undir væntingum markaðsaðila sem höfðu gert ráð fyrir 2,09 dollara hagnaði á hlut.

Tekjur fyrirtækisins námu rétt tæpum 20 milljörðum dollurum á fjórðungnum og drógust saman um 21% frá sama tímabili í fyrra. Tekjur félagsins voru í takt við væntingar markaðsaðila sem höfðu gert ráð fyrir 19,7 milljörðum.

Kyrrsetning 737 MAX véla félagsins hefur óneitanlega litað rekstrarár Boeing til þessa. Hagnaður félagins á fyrstu níu mánuðum ársins nam 374 milljónum dollara og hefur dregist saman um 95% frá sama tímabili í fyrra en gjaldfærsla vegna kyrrsetningarinnar og skaðabóta til bæði flugfélaga og aðstandendur þeirra sem fórust flugslysunum tveimur síðasta vetur nam um 4,9 milljörðum dollara að teknu tilliti til skatta á öðrum ársfjórðungi.

Í tilkynningu vegna uppgjörsins kemur fram að félagið gerir ráð enn ráð fyrir að bandarísk flugmálayfirvöld muni gefa MAX vélunum grænt ljós á fjórða ársfjórðungi þessa árs. Þess má geta að ekkert bandarískt flugfélag gerir ráð fyrir vélunum á þessu ári og það sama á við um Icelandair sem gerir ráð fyrir að vélarnar fari aftur í loftið í byrjun næsta árs.

Þrátt fyrir kyrrsetningu MAX vélanna hefur Boeing lítið sem ekkert dregið úr framleiðslu á einni söluhæstu vél sögunnar. Fyrirtækið hélt upp framleiðsluhraða upp á 42 vélar á mánuði á þriðja ársfjórðungi og gerir auk þess ráð fyrir að framleiðsluhraðinn verði kominn upp í 57 vélar á mánuði fyrir lok næsta árs.

Eftir að uppgjörið var birt hafa hlutabréf Boeing hækkað um rúmlega 1% fyrir opnun markaða vestanhafs. Gengi bréfa Boeing hefur hækkað um 4% það sem af er þessu ári en hefur þó hækkað um 23,5% frá hápunkti sínum í mars auk þess sem það hefur lækkað um tæplega 10% á síðustu viku.