*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 11. september 2019 08:31

Hagnaður Borgarplasts stóð í stað

Á sama tíma og velta og eigið fé nýsameinaðs félags jókst um þriðjung jukust skuldirnar um 70%.

Ritstjórn
Stjórnarmenn og starfsmenn Borgarplasts eftir sameininguna við Plastgerð Suðurnesja.

Rétt rúmlega 172 þúsund króna aukning varð á hagnaði Borgarplasts hf. í Mosfellsbæ á síðasta ári frá árinu áður, en hagnaðurinn árið 2018 nam tæplega 47,9 milljónum króna. Rekstrartekjur félagsins, sem stóð í sameiningu á árinu, jukust hins vegar um 35,2% á árinu, úr 519 milljónum í 701,5 milljónir króna.

Á sama tíma jókst rekstrarkostnaður félagsins um 42%, úr um 445,1 milljón króna í 631,2 milljónir króna, svo ásamt með eilítilli aukningu í öðrum tekjum dróst rekstrarhagnaðurinn saman um 9,4%, úr 61,9 milljón króna í 56,1 milljón króna.

Á árinu minnkuðu fjármagnstekjur félagsins um 10 milljónir meðan fjármagnsgjöldin jukust um tæplega 8 milljónir, á sama tíma og gengishagnaðurinn jókst um 3,5 milljónir króna.

Í heildina jókst tap af fjármagnsliðum um ríflega 150%, eða úr 9,5 milljónum í 23,8 milljónir króna milli ára, en á móti fjórfaldaðist hlutdeild félagsins í afkomu hlutdeildarfélaga, það er úr 5,8 milljónum í 24,2 milljónir króna, en félagið á 38,72% í Umbúðamiðlun ehf.

Sameinuðust og skiptu um eigendur

Á miðju ári sameinaðist Plastgerð Suðurnesja ehf. inn í félagið formlega en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í lok síðasta árs var sameiningin leidd af Alfa Framtaki sem áður hét Icora Partners. Við það fækkaði hluthöfunum úr átta í byrjun árs í tvo í lok þess, annars vegar AU 2 ehf. sem á 99,99% og Umbreyting slhf. sem á tæp 0,01% í félaginu.

Eigið fé félagsins jókst um þriðjung á árinu, úr 676,4 milljónum króna í 900,2 milljónir króna, á sama tíma og skuldirnar jukust um 70%, úr 499,8 milljónum króna í 850,6 milljónir. Þar með jukust eignirnar um 48,9%, úr rúmlega 1.1760 milljónum í tæplega 1.751 milljón króna, meðan eiginfjárhlutfallið fór úr 57,5% í 51,4%.

Samhliða sameiningunni fjölgaði stöðugildum milli ára úr að meðaltali 20,5 á árinu 2017 í 33 á árinu 2018. Haukur Skúlason er framkvæmdastjóri, en Björn Herberg Guðbjörnsson, Yngvi Halldórsson og Árni Jón Pálsson eru stjórnarmenn. Heildarlaun og þóknanir til stjórnenda félagsins á árinu 2018 námu 33,9 milljónum króna.