Hagnaður olíufyrirtækisins BP á öðrum ársfjórðungi er nálæga helmingur þess sem var fyrir ári síðan.

Féll hagnaðurinn niður í 720 milljón Bandaríkjadali, sem er 44% lækkun frá því fyrir ári þegar hann náði því að vera 1,3 milljarður dala. Kemur þetta fyrst og fremst til vegna lægra olíuverðs.

Bera enn kostnað af Deepwater Horizon

Fyrr í mánuðinum sagði olíufyrirtækið jafnframt að lokakostnaður fyrirtækisins vegna olíuslyssins í Mexíkóflóa árið 2010 yrði 61,6 milljarður dala. Í apríl 2010 varð sprenging í olíuborpallinum Deepwater Horizon, sem olli dauða 11 starsmanna og olíuleka sem varð að versta mengunarslysi í sögu Bandaríkjanna.

Nam kostnaður á ársfjórðungnum vegna slyssins um 5,2 milljörðum dala. Jafnframt tilkynnti fyrirtækið um aukin niðurskurð á fjárfestingum sínum.

Á mánudag hafði olíuverð ekki verið lægra í fjóra mánuði. Féll hráolía frá Bandaríkjunum niður í 43,11 dali tunnan meðan Brent hráolía fór niður í 44,75 dali tunnan.