Hagnaður olíurisans BP tvöfaldaðist á síðustu þremur mánuðum ársins 2016 í kjölfar þess að olíuverð hefur hækkað eilítið og aukins niðurskurðar.

Undirliggjandi hagnaður fyrirtækisins reyndist 400 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur tæpum 46 milljörðum króna, á síðasta ársfjórðungi síðasta árs, en á sama tímabili árið áður var hagnaðurinn 196 milljón dalir.

Á tímabilinu greiddi fyrirtækið 799 milljón dali í sektir vegna slyssins í Deepwater Horizon olíuborpallinum í Mexíkóflóa, svo heildarútgjöld fyrirtækisins vegna þess hafa nú numið 62,6 milljörðum dala.

2,58 milljarða dala hagnaður yfir árið

Ef horft er á árið allt nam undirliggjandi hagnaður fyrirtækisins 2,58 milljörðum dala, sem þó er samdráttur frá 5,90 milljarða hagnaði árið 2015. Sá hagnaðarmælikvarði sem fyrirtækið notar tekur ekki tillit til breytinga á verði olíulinda í eigu félagsins.

Vegna þess að hagnaðartölurnar reyndust lægri en markaðsaðilar höfðu spáð lækkuðu hlutabréf í BP um 2% þegar viðskipti hófust í London.

Kostnaður vegna Deepwater Horizon að baki

Árið 2015 var heildartap fyrirtækisins það mesta sem það hefur verið í 20 ár, vegna kostnaðar við olíuhreinsunarstörf í Mexíkóflóa og lækkandi olíuverðs.

Forstjóri fyrirtækisins, Bob Dudley, sagði að kostnaður og sektargreiðslur fyrirtækisins vegna slyssins væri að baki.

„BP einblínir nú á framtíðina", sagði hann, en fyrirtækið stefnir á að ná jafnvægi í rekstrinum við lok ársins miðað við olíuverð í kringum 60 Bandaríkjadali á fatið.

Arðgreiðslur í hlutabréfum

Undanfarið hefur fyrirtækið farið í eignakaup á ný, meðal annars keypt bensínstöðvar í Ástralíu og keypt 10% hlut í Abu Dhabi Company, sem gefur því aðgang að stærstu olíulindum landsins auk þess að kaupa hlut í olíurannsóknarsvæðum undan ströndum Máritaníu og Senegal.

Arðgreiðslur fyrirtækisins námu 10 sentum á hlut, en sumir greinendur hafa áhyggjur af því að þær voru greiddar út í hlutabréfum en ekki peningum.