Hagnaður Byko ehf. í fyrra nam 528 milljónum króna, samanborið við 131,2 milljóna króna hagnað árið 2014. Framlegð af vörusölu jókst nokkuð milli ára, var 3,6 milljarðar árið 2014, en var 4,3 milljarðar í fyrra. Velta fyrirtækisins jókst úr 12,1 milljarði í 13,4 milljarða milli ára.

EBITDA-hagnaður fyrirtækisins var í fyrra 718,5 milljónir króna, en var 289,6 milljónir árið á undan. Þá voru áhrif fjármagnsliða og hlutdeildarfélaga jákvæð um 27,3 milljónir í fyrra, en voru neikvæð um 79,5 milljónir árið 2014.

Eignir félagsins minnkuðu eilítið á milli ára, úr 4,5 milljörðum í 4,3 milljarða, en birgðir og viðskiptakröfur eru langveigamest á eignahlið efnahagsreikningsins. Skuldir námu um áramótin 2,6 milljörðum króna, en voru ári fyrr 3,3 milljarðar. Þar af voru langtímaskuldir 145 milljónir króna.

Eigið fé fyrirtæksins jókst um rúman hálfan milljarð milli ára og nam í árslok 2015 1,7 milljarði króna.

Stjórn félagsins leggur ekki til að greiddur verði arður til hluthafa vegna rekstrarársins 2015, en Norvik hf. á allt hlutafé í Byko.