Leikjaframleiðandinn CCP skilaði 20,7 milljóna dala hagnaði í fyrra, sem samsvarar um 2,7 milljörðum íslenskra króna. Árið 2014 skilaði fyrirtækið tapi upp á 8,7 milljarða, en það ár var mikil fjárfesting í leiknum World of Darkness afskrifuð og hafði það veruleg áhrif á rekstrarreikning fyrirtækisins. Samkvæmt upplýsingum frá CCP hefur hagnaður félagsins aldrei verið jafnmikill á einu ári og í fyrra og að fjárhagsleg staða þess hafi aldrei verið sterkari miðað við stöðu handbærs fjár.

Velta CCP dróst saman um 2,9 milljónir dala milli ára og var 65,7 milljónir dala í fyrra. Rekstrarhagnaður nam 20,6 milljónum dala og EBITDA var 31 milljón dala, samanborið við 9,7 milljónir árið 2014.

Efnahagsreikningur félagsins tók einnig stakkaskiptum í fyrra. Í ársbyrjun var eigið fé neikvætt um 15,3 milljónir dala, en var um síðustu áramót jákvætt um 35,5 milljónir. Skuldir lækkuðu um rúmar fjórar milljónir dala og stóðu í 44,4 milljónum dala um síðustu áramót. Eignir námu 79,9 milljónum dala um áramótin og þar af var laust fé 56,2 milljónir dala. Í nóvember í fyrra var greint frá því að framtakssjóðurinn New Enterprise Associates hefði lagt CCP til nýtt hlutafé að fjárhæð 30 milljóna dala, andvirði tæpra fjögurra milljarða króna.