Hagnaður stærsta drykkjarframleiðanda heims nam 1,37 milljörðum dollara á öðrum ársfjórðungi samanborið við 3,45 milljarða á sama tímabili í fyrra. Er því um að ræða samdrátt upp á 2,08 milljarða dollara. Hluta af samdrættinum má þó rekja til einskiptiskostnaðar upp á 653 milljónir dollara. Þetta kemur fram í nýbirtu árshlutauppgjöri félagsins.

Tekjur félagsins drógust saman um 16% frá 2016 og námu 9,7 milljörðum dollara á tímabilinu. Þrátt fyrir samdrátt í hagnaði og tekjum var afkoma fyrirtækisins betri en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir. Fyrir utan einskiptiskostnað var hagnaður á hlut 59 sent á hlut en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir 57 sentum á hlut. Þá voru tekjur 50 milljónum dollara hærri en spár höfðu gert ráð fyrir.

Gengi hlutabréfa Coca-Cola hefur lítið hreyfst á eftirmarkaði í kjölfar uppgjörsins. Gengi bréfanna stendur nú í 45,24 dollurum á hlut og hefur hækkað um 9,12% það sem af er ári.